3.10.19

Tvær kvikmyndir

Við sáum tvær heimildarmyndir í Prospect: The Australian Dream og Diego Maradona.

Myndirnar voru báðar um íþróttamenn sem voru fyrst dýrkaðir og síðar  púaðir niður af áhorfendum. Það er óþægilegt að sjá múgæsingu svona skýrt, tvö hliðstæð tilfelli, raundæmi. Einstaklingur sem leggur sig allan fram, er með undraverða færni og elskaður af áhorfendum. Svo virðist sem áhorfendur spegli sig í íþróttahetjunni þegar vel gengur. Sigur hennar er sigur minn, ég verð einhvers virði í gegnum þessa frábæru frammistöðu. Þegar flæðir undan íþróttamanninum þarf ég að passa upp á sjálfan mig. Samsömun hættir og ég fer að fyrirlíta hann. Best að láta hann vita af því, púa á hann úr launsátri - í samhljómi áhorfendaskarans.

Örlög þessara manna eru að sumu leyti hliðstæð. Báðir koma úr umhverfi þar sem félagsleg staða er veik. Þeir rísa til virðingar og metorða í gegnum íþróttina. Þegar þeir hafa verið hraktir af sviðinu virðist enginn kæra sig um þá. Í tilfelli Maradona er sárt að sjá hvernig valda- og peningamenn notuðu hann í þágu eigin hagsmuna og virtu þarfir hans og mannelga reisn að vettugi. Hinn íþróttamaðurinn, Adam Goodes, var um árabil stórstjarna í AFL (Australian Football, eða Footie). Hann er af frumbyggja ættum og varð fyrir kynþáttabundnum fordómum sem mögnuðust þegar hann bar hönd fyrir höfuð sér. Loks gekk eineltið svo langt að hann hætti í íþróttum. Augsýnilega mjög sterkur maður, sem núna einbeitir sér að því að hlúa að æskufólki af frumbyggja ættum. Saga hans er sérkennileg speglun á samskiptum ríkjandi stétta í Ástralíu og frumbyggjanna sem langt fram eftir síðustu öld voru réttlausir í eigin landi. Munurinn á þessari mynd og hinni fyrri er sá að einn maður stóð upp og hélt ræðu um hegðun landa sinna sem hlustað var á. Hann er framleiðandi myndarinnar. Og á frumsýningardaginn lögðu AFL og öll íþróttafélög innan þess fram afsökunarbeiðni vegna árása sem Adam Goodes hafði orðið fyrir og höfðu hrakið hann frá íþróttinni.

Þessar myndir báðar eru sterk, tragísk áminning.

16.9.19

Skólaheimsóknir í Adelaide

Ég heimsótti 5 framhaldsskóla í Adelaide og fékk ítarlega kynningu á starfi þeirra. Skilgreining á framhaldsskóla er bekkur 8-12, þ.e. 14-18 ára - reyndar er núna verið að bæta 7. bekk inn flytja hann úr grunnskólanum. Margt kemur kunnuglega fyrir sjónir, annað er ólíkt okkur. Til dæmis eru skólarnir lokaðir yfir daginn, nemendur mega ekki fara út af lóðinni og gestir þurfa að skrá sig formlega inn í húsið og fá gestamerkingu á sig: 


Skólarnir eru eins og annað heimili nemenda og frístunda- og klúbbastarf mjög blómlegt, bæði í hádegishlénu og einnig eftir að kennslu lýkur.  Íþróttir leika þar stórt hlutverk og keppa skólar sín í milli. Margir skólar skylda nemendur til þátttöku í samfélagsþjónustu eða ýta undir slíkt starf. Og áberandi er áherslan á lýðræðisuppeldi og valdeflingu nemenda undir heitinu "student voice". Allir nemendur hafa umsjónarkennara, yfirleitt nefnt "pastoral care". Umsjónarbekkurinn hittist daglega í gegnum öll skólaárin, en það er aðeins misjanft hversu langan tíma í hvert sinn. Ef eitthvað er, þá sýnist mér menn vera að styrkja þennan þátt enn frekar með aukinni áherslu á einstaklingsmiðað nám og að leggja áherslu á að sérhver nemandi nái góðum árangri.

Þegar litið er inn í skólastofur, bæði í hefðbundnum skólum og þeim nýstárlegri, þá er reglan sú að nemendur sitja í hópum, gamla uppröðun verksmiðjuskólans sést varla lengur. Og í öllum skólunum eru nemendur með eigin fartölvur, yfirleitt allar af sömu gerð. Húsnæði skólanna var vissulega ólíkt, en almennt virtist metnaður lagður í góðan aðbúnað. Þannig var í öllum skólunum tækjabúnaður fyrir stafræna tækni (sem við á Íslandi köllum Fablab), þrívíddarprentarar, laser- og vínilskerar voru oft á hverri hæð og tíðum mörg tæki saman. Dæmi: eitt af mörgum þrívíddarprentunarhornum í Adelaide Botanic High School:

Og hér er helmingur þeirra 10 þrívíddarprentara sem eru í stofunni hjá ASMS:

Flestir skólarnir voru með aðstöðu til verklegrar kennslu, en misjafnt hvaða greinar þeir buðu upp á. Nemendum býðst að taka verklega áfanga sem hluta af námi til lokaprófs úr framhaldsskóla. Jafnvel svo langt að þeir geti farið í vinnustaðanám að lokinni útskrift til að öðlast löggildingu í iðn í framhaldinu.

Fyrsti skólinn sem ég heimsótti var Australian Science & Mathematics School, kallaður ASMS, byggður á lóð Flinders háskólans og hefur starfað frá 2003. Nemendur eru um 380 í þremur árgangsbekkjum: 10, 11 og 12. Námið er skipulagt alfarið þverfaglegt og þemabundið fyrri tvö árin. Í 12. bekk er ennþá kennt greinabundið en fyrirhugað að breyta því smám saman. Námskrá skólans uppfyllir kröfur opinberu námskrárinnar, en kennarar hafa endurskrifað hana til að fella að þemabundnum kennsluháttum. Dæmi um þemayfirskriftir eru: Að hanna skrímsli, Jörðin og alheimurinn; Sjálfbær framtíð (sjá nánar hér).

Kennt er í stóru opnu rými, nánast engin kennslustofa er í skólanum. Og í bekkjum 10 og 11 eru alltaf 2-3 kennarar saman með nemendahópinn í kennslustundinni. Þannig eiga nemendur aðgang að ólíkum sérfræðingum, en námið er að miklu leyti nemendastýrt, nemendur sitja saman í litlum klösum og eiga greiðan aðgang að aðstoð hvers annars eða samræðu þegar hópverkefni eru í gangi. Kennararnir eru á hliðarlínunni. Límið í skólastarfinu er umsjónarbekkurinn, þar sem undir einu heiti er umsjón, námstækni, mentorastarf o.fl. Þessi áfangi er fastur liður öll þrjú skólaárin.



















ASMS er leiðandi í þverfaglegri kennslu og sér m.a. um endurmenntun kennara á því sviði sem og á sviði stærðfræðikennslu og kennslu í STEM-greinum.

Adelaide Botanic High School, ABHS, er nýr skóli í hjarta borgarinnar með grasagarðinn á aðra hlið og háskólann, University of Adelaide, á hina - og svo á starfsnámsmiðstöð, TEFA, að rísa þar á milli. Byggt var yfir skólann af miklum stórhug, byggingarkostnaður var um 100 milljón ástralíudollarar, sem eru um 8,6 milljarðar íslenskra króna. Þetta eru tvær samtengdar byggingar, önnur nýuppgerð og hin nýbyggð. Skólinn er fallega hannaður, bjartur, opinn og vel búinn tækjum. Hér er skólastjórinn, Alastair Brown, að kynna skólann fyrir gestum á SASPA-ráðstefnunni:


Skólastjórnendur og kennarar hafa unnið mikið í að móta skólabrag, skólamenningu og stefnu um nám nemenda. Þetta verður um 1250 nemenda skóli, með bekki 7-12 (aldur 13-18 ára) þegar hann er fullskipaður. Kennslan er þverfagleg og kennt í stórum opnum rýmum með greiðum aðgangi og sýnileika á milli þeirra. Mikið lagt upp úr samstarfi og endurmenntun kennara, m.a. með að horfa stöðugt á annan kenna. Og draumurinn um stundatöflu er þarna: nemendur mæta kl. 9:25 á morgnana og kl. 10:15 á miðvikudögum sem eru smiðjudagar. Nemendur koma því útsofnir í skólann og kennarar hafa tíma til samstarfs 8:30-9:30 fjóra daga í viku og 8:30-10:00 á miðvikudögum. Og allir fara heim kl. 16:00 á daginn. Hér er mynd af vikuskipulaginu:

















Það verður gaman að fylgjast með hvernig þessum metnaðarfulla skóla vegnar í framtíðinni.

Adelaide High School, (heimasíða) er eins konar MR þessarar borgar. Elsti framhaldsskólinn, í miðborginni, virðulegur og metnaðarfullur, með sterka sjálfsmynd og merka sögu eins og sjá má hér á sal skólans:


Byggingin er gömul, með alls kyns viðbótum og bera rýmin þess merki. En mikið er um endurgerðir og hugað mjög vel að því að skapa spennandi námsaðstæður handa nemendum. T.d. er núna verið að hanna stórt einangrað rými fyrir tónlistarkennslu. Á bakvið skólann eru víðáttumiklir grænir íþróttavellir sem skólinn notar yfir vikuna og sér um að viðhalda, en síðan hafa aðrir aðgang að völlunum um helgar.


Nemendur eru virkir í mörgu innan skólans til hliðar við hið formlega nám (co-curricular activities). Íþróttir skipa ríkan sess, m.a. róðrar og krikket, en einnig athafnasemi sem við þekkjum eins og ræðumennska, þrautalausnir, umhverfisvernd, skák og listiðkun. Þeir sinna þessu starfi í hádegishléum og að loknum skóladegi, sjálfstætt en með stuðningi kennara.

Námsframboð er auðugt og keppast nemendur um að komast í skólann úr öðrum hverfum. Hann hefur því hátt hlutfall góðra námsmanna. Áhersla er á raungreinar og listir (STEAM) og skólastjórinn sagði mér að margir nemendur tækju þyngstu stærðfræðiáfangana, tveir stórir hópar í 12. bekk. Stærðfræði væri reyndar sú grein, sagði skólastjórinn, sem kennarar kysu að hafa marga í hópi, það væri að þeirra mati auðvelt með þeim aðferðum sem þeir beita. Þarna eins og annars staðar er námsefnið að miklu leyti á vefnum og nemendur eru með eigin tölvur. Einnig er mikil áhersla á tungumál og kennslan tengd við öflug alþjóðleg samskipti í gegnum vinaskóla víða um heim. Greinar voru kenndar á sama stað í skólanum. Þannig var sérstakur stærðfræðigangur annars vegar og tungumálagangur hins vegar með nokkrum kennslustofum, allar með glerveggjum og opnu rými þar sem hægt var að læra og fá námsstuðning og loks vinnuherbergi kennaranna á sama stað. Þetta ýtir undir faglegt samstarf kennara og nemendur á mismunandi stað í greininni eru í nánd við hvern annan.




Skólinn fær útskrifaða nemendur til að koma og veita námsstuðning eftir að þeir eru komnir í háskólanám. Þeir virka þannig sem fyrirmyndir. Og sjálfboðin þjónusta upp á 15 klst. er skylda fyrir alla nemendur. Og skólastjórinn, Cez Green er að innleiða skipulagt námsstuðningsferli, sem er í höndum sérkennara og talmeinafræðings, mjög metnaðarfullt og hefur hjálpað kennurum til að mæta nemendum enn frekar og bæta námsárangur. Þetta stuðningskerfi er í anda tillagna Evrópumiðstöðvarinnar um skóla fyrir alla hjá okkur á Íslandi.

Glenunga International High School, GIHS, er suðaustur af miðborg Adelaide. Skólastjórinn, Wendy Johnson, segir á heimasíðu: Skólinn er að breytast úr því að vera góður 20. aldar skóli í að verða fyrirmyndarskóli 21. aldarinnar með megin áherslu á námsárangur og  velferð nemenda. 

Móttökur voru mjög sérstakar, því ung íslensk stúlka, Viktoría G.J. Johns, var fengin til að leiða mig um skólann. Þetta er þáttur í valdeflingu ungs fólks í skólanum og stóð hún sig með mikilli prýði. Hér erum við Viktoría ásamt Wendy og Peter í upphafi heimsóknarinnar:


Ég fékk að fara um allan skólann í fylgd Viktoríu og upplifa skólastarfið í gegnum hennar augu sem var mjög áhugavert. Skólinn er verulega flottur, iðandi af lífi og mjög nemendamiðaður í alla staði. Augljóst var að nemendur voru stoltir af skólanum sínum og fundu að kennurum var alvara í að vilja koma þeim til manns. Þessi skóli hefur farið í gegnum mikið breytingarferli síðast liðin tíu ár og árangur nemenda hefur stórbatnað: fyrir 10 árum náðu um 52% nemenda einkunn B eða hærra á lokaprófum úr menntaskóla, í dag eru það 80%. Þá náðu um 79% nemenda einkunn C eða hærra fyrir 10 árum, núna eru það um 89%. 

Umbæturnar hafa verið á fjölmörgum sviðum, en framar öllu hefur áherslan verið lögð á að nýta fræðilega þekkingu og tölulegar upplýsingar til að þróa kennsluhætti og námssamfélag sem miðar að því að auka námsárangur nemenda. Og núna er verið að beina sjónum í auknu mæli að vellíðan nemenda og að hlúa að sjálfstæði þeirra og leiðtogahæfni. Kennarar gegna lykilhlutverki í þessu breytingaferli. Þeir vinna saman að því að greina upplýsingar um námsárangur, skilgreina markmið og leiðir til að hjálpa nemendum að ná árangri. Lífleg og stöðug endurmenntun er í gangi meðal kennara, bæði í gegnum samræðu og samvinnu en einnig í gegnum það að kynna sér nýjustu áherslur í kennslufræðum. Þannig var strax 2008 byggt á hugmyndum John Hattie um hvað einkennir fyrirmyndarkennslu; árið 2009 hófst markviss nýting á upplýsingatækni til að styðja við námsárangur nemenda; fartölvunotkun kennara var innleidd árið 2010 og sama ár var kennslumat nemenda gert að föstum þætti í skólastarfinu; skipulagt umsjónarkerfi fyrir alla nemendur skólans, kallað Program X, var innleitt árið 2011 þar sem m.a. var kennd námstækni og námsskipulag. Árið 2012 fór fagfólk skólans að ræða hugmyndir um 21. aldar kennslufræði, með áherslu á sérsniðið nám og einstaklingsmiðun. Sama ár var tekin upp reglan um að nemendur kæmu með eigin fartölvur í skólann, byrjað á efstu árgöngunum. 


Árið 2013 var sett upp námsmiðstöð (HUB, sbr. námsver/vinnustofa) þar sem nemendur fá alls kyns hjálp og þar í nánd er einnig íverustaður (Learning Street) fyrir elsta árganginn.  Kennarar byrjuðu þetta ár að kynna sér nýtingu vendikennslu og sýndarveruleika í kennslu. Sama ár fóru menn að beina enn frekar sjónum að nemandanum, styðja við læsi og talnalæsi í efstu bekkjum sem er forsenda árangurs í námi. Og svo áttu nemendur upphafið að heilsuviku, en einnig að á því að skólinn hefur markað stefnu um að nemendur þrói með sér alþjóðasýn og leiðtogahæfni. 

Ofangreindir þættir hafa verið þróaðir markvisst áfram, ár frá ári og kennarar og nemendur hafa fundið sig á öruggari grunni, enda er málum fylgt eftir bæði gagnvart nemendum og kennurum með mentorastuðningi, jafningjastuðningi og námskeiðum. Nýir kennarar fá sérstaka hjálp og kenna færri áfanga í byrjun. Fræðimenn sem vitnað var til að höfðu leitt hópinn voru m.a. Cindy Bunder kennari í Glenunga, Jon Bergmann sérfræðingur í vendikennslu og svo fengu nemendur kennslu í leiðtogun frá Scott Jones sem kennir stúdentum í University of South Australia leiðtogun. Og nýverið tóku nemendur úr skólanum þátt í alþjóðlegu frumkvöðlanámi undir leiðsögn hins heimsfræga Yong Zhao, sem skólarnir í S-Ástralíu fengu til ráðgjafar í gegnum SASPA.

Þessi upptalning stiklar á stóru um ótrúlega öflugt þróunarstarf í skólanum. Skólinn veitir fjölbreytta alhliða kennslu að mér sýnist af mjög góðum gæðum. Og metnaðurinn endurspeglast líklega best í því að á allra síðustu árum hafa þau tekið upp og eru að þróa nám fyrir afburðanámsmenn og einnig IB-nám. Þeim tekst að samtvinna þetta framboð af hagkvæmni, þannig að hvað styður annað. Og listum er einnig gert hátt undir höfði í stórum myndlistar- og tónlistarstofum.

Loks heimsótti ég Thebarton Senior College, sem er stór framhaldsskóli, svolítið eins og fjölbrautaskólarnir okkar heima. Skólastjórinn, Eva Kannis-Torry tók á móti mér og sýndi mér skólann og fékk stjórnendur til að kynna fyrir mér námsframboðið og starfsemina. Hér er mynd af okkur saman:

Í skólanum er töluvert af eldri nemendum, svipað og hjá okkur í FB. Kennt er í dagskóla, en einnig eru námskeið í boði síðdegis (twilight courses) og þau sækja m.a. nemendur úr öðrum framhaldsskólum sem vilja læra verknám, eða fólk sem er í vinnu á daginn - e.k. kvöldskóli. 
Segja má að starfsemi skólans byggi á 3 stoðum:
A) RTO: skólinn er viðurkenndur verkmenntaskóli og býður námskeið og námsleiðir á því sviði.
B) Senior College: skólinn kennir SACE-námskrána til stúdentsprófs/lokaprófs úr framhaldsskóla.
C) Enskunám fyrir útlendinga (New Arrivals Programs og English Certificate).
Hægt er að taka verknámskúrsa sem hluta af bóknámi til stúdentsprófs. Þannig eiga nemendur þeir kost á hvoru tveggja í framhaldinu: að halda áfram starfsþjálfun og ná löggildingu í verkgrein sinni, en einnig að fara í nám á háskólastigi. 
Skólinn sé um móttöku erlendra nemenda, sem eru sífellt að koma. Þannig eru einu sinni í viku haldin stöðupróf handa fólki sem vill hefja nám í skólanum. Prófuð er ensku- og stærðfræðkunnátta nokkuð ítarlega og í framhaldinu ákveðið hvernig hægt sé að mæta þörfum viðkomandi. Á grundvelli þessa mats fara nemendur ýmist i grunnnám (Literacy program, 60 vikur), sem er handa þeim sem hafa að baki minna en 10 ára grunnskólanám, eða tungumálanám (Language Curriculum, 40 vikur) sem er handa þeim sem vantar eingöngu tungumálið, en hafa menntun að baki heiman frá. Þetta tilboð er einungis ætlað fólki nýkomnu til landsins, e.k. móttökuáætlun.

Það var frábært að fá að heimsækja svona marga ólíka skóla. Metnaður, fagmennska og umhyggja fyrir nemendum var ríkjandi á hverjum stað.

12.9.19

Menntamálaráðuneyti Suður Ástralíu

Í menntamálaráðuneyti Suður Ástralíu (Department of Education) fékk ég tækifæri til að tala við Garry Costello, ráðgjafa ráðherra menntamála ríkisins. Hann talaði um skólamál af mikilli dýpt og góðri yfirsýn, var fyrrverandi skólastjóri, hafði tekið við skóla sem var í erfiðri stöðu og snúið honum algerlega. Hann sagðist hafa í upphaf lagt megin áherslu á stofnanamenningu, að menn sýndu hver öðrum virðingu og að virðing fyrir nemendum væri lykilatriði. Síðan var markvisst unnið í því að bæta námsárangur sem tókst. Hér er mynd af okkur saman á skrifstofu hans:


Ég spurði Garry hvað hann teldi brýnasta málefnið í menntamálum og hann sagði það vera að tryggja jafnrétti. Hann telur mikilvægt hlusta á sjónarmið skólafólksins sjálfs og að virða hversu flókið verkefni skólarnir hafi með höndum.

Fleira fólk í ráðuneytinu ræddi ég við, m.a. David Ensor skrifstofustjóra stefnumótunar og ytri samskipta, en hann greiddi leið mína að ráðuneytisfólkinu:

Og síðan ræddi ég við Lidija Pretreger í tölfræðideild ráðuneytisins um tölfræðilegt utanumhald verkefnis er miðar að því að minnka brotthvarf nemenda með því að bjóða þeim sveigjanleika og stuðning í námi. Verkefnið heitir Flexible learning Options (FLO) og þykir hafa skilað góðum árangri skv. úttekt sem gerð var 2018.


Loks fékk ég viðtal við Andrew Smith og samstarfsmann hans Rigby Barnes, en þeir sjá um prógramm sem styður við fumbyggjanemendur. Ný stefna ríkisins um menntun frumbyggja hefur verið birt, unnin með þátttöku hlutaðeigandi aðila undir forystu prófessors Peter Buckskin sem fer fyrir málefnum frumbyggja í háskólanum í Adelaide. Stefnuna má finna hér.

8.9.19

Dvalið í Adelaide

Adelaide er höfuðborg sambandsríkisins Suður Ástralíu. Sambandsríkin eru kölluð 'states' og ríkið sjálft kallað 'commonwealth'. Vegna sögulegrar þróunar landnáms í Ástralíu eru sambandsríkin mjög sjálfstæð og vilja oft ekki mikla afskiptasemi af hálfu ríkisins. Þannig eru skólamál undir stjórn sambandsríkjanna, en vissulega fá þau úthlutað fjármunum til málaflokksins frá ríkinu. Ég fór á ráðstefnu skólastjóra framhaldsskóla sambandsríkisins dagana 15. og 16. ágúst, heimsótti nokkra framhaldsskóla og hitti nokkra embættismenn, m.a. ráðgjafa menntamálaráðherra. Peter Mader, forseti SASPA (South Australian  Secondary Principal's Association) átti veg og vanda að skipulagningu dvalarinnar sem stóð frá 14. til 30. ágúst 2019. Ég er honum afar þakklát fyrir greiðasemina.

Við dvöldum fyrstu þrjár næturnar á hóteli í miðbænum, en eftir það í Airbnb íbúð í Prospect sem er virðulegt hverfi norður af miðbænum. Við skoðuðum söfnin í bænum, South Australian Museum með mörgum munum tengdum frumbyggjum, listasfnið, innflytjendasafnið, grasagarðinn, National Wine Center og Tandanya-menningarmiðstöð frumbyggja. Rétt hjá okkur í Prospect var flott kvikmyndahús sem kom sér vel, við gengum um hverfið og borgina, lásum, lærðum og nutum þess að hvíla okkur eftir ferðaannríki í upphafi Ástralíudvalarinnar. Og ekki síst að fylgjast með þjóðmálaumræðunni og kynnast þjóðaríþróttinni Footy, sem mikil ástríða er fyrir. Svo virðist sem allir landsmenn eigi sitt uppáhaldslið. Fólkið var afar elskulegt og tók okkur vel, m.a. áttum við kaffistund með rithöfundinum Hannah Kent, sem skrifaði "Náðarstund". Móðir hennar var á skólastjóraráðstefnunni og skipulagði þennan ánægjulega hitting í Prospect viku síðar.

5.9.19

Daintree regnskógurinn

Daintree Rainforest liggur samsíða stóra kóralrifinu. Tvö náttúrufyrirbæri á heimsminjaskrá UNESCO. Skógurinn er 135 milljón ára gamall, breiddi sig áður yfir alla Ástralíu, hefur nú hopað hingað og er núna takmarkaður við1200 ferkílómetra svæði (flatarmál Íslands er 103 þúsund, flatarmál Ástralíu er 7,7 milljón ferkílómetrar).



Þekjulagi skógarins er líkt við gólfteppi, plönturnar lifa í mismunandi hæð eftir því hversu mikla þörf þær hafa fyrir sólarljósið. Hér ríkir jafnvæg eilífðarinnar. Tegundafjölbreytni er gífurleg og margar plöntur og dýr regnskógarins fyrirfinnast ekki annars staðar.



Við fórum upp í skóginn á kláfi (Skyrail) sem liggur frá útjaðri borgarinnar Cairns og hefur viðkomu á tveimur stöðum áður en komið er upp í þorpið Kuranda. Þjóðgarðsverðir bjóða upp á leiðsögn og fræðslu um vistkerfi skógarins. Endalaus kyrrð ríkir í skóginum, loftið er mettað af súrefni þannig að gesturinn upplifir kraft og bjartsýni, vill dvelja hér áfram.



Skóginum er ógnað af hamfarahlýnuninni eins og öllu öðru lífi á jörðu.

4.9.19

Great Barrier Reef

Port Douglas, þangað er best að fara til að skoða kóralrifið var svarið. Við bókuðum þrjár nætur þar og fórum í dagsferð út að skoða rifið. Þetta var massatúrismi, ég fékk að kafa, Atli beið í stjórnstöðinni. Get ekki sagt að ég hafi séð mikið, en við sáum aðstæður. Hefðum hugsanlega getað farið í annars konar ferð og kafað á nokkrum stöðum. Það er ekki málið að ég sjái fegurð rifsins, málið er að það er að hrynja af völdum hamfarahlýnunar. Menn eru með aðgerðir til að bjarga smá hér og hvar, en sýrustig sjávar er það sem þarf að breytast og það gerist aðeins með minnkun á útlosun koldíoxíðs. Þurfum að fylgja forystu Grétu Thunberg, ekki bara ungmennin heldu allir.


Port Douglas er fallegur bær, vel varðveittur. Húsin standa stjrált með miklum görðum og vexti allt í kring. Ekta sumarleyfisstemning, allt frekar smátt í sniðum og vinalegt. Það er reyndar tilfinningin víða, plássið er svo mikið hér í Ástralíu, það þrengir ekki að fólki. Íslendingum líður hér vel, þótt umhverfi og loftslag sé ekki eins og við eigum að venjast hversdags.





Darwin

Dvölin í Darwin var ánægjuleg. Og skipulögð upp í topp, þökk sé henni Janette Steele (Darwin City B&B) sem óvart þurfti að hafna bókun frá okkur, því önnur bókun kom upp í miðri skráningu. Henni þótti það svo leiðinlegt að hún vildi endilega hjálpa okkur við að skipuleggja dvölina. Sem kom sér einkar vel. Hún snerist í kringum okkur eins og umhyggjusöm móðir og síðustu dagana dvöldum við hjá henni, sem betur fer. Við fórum í safnið fyrsta daginn og lærðum um gjöreyðingu bæjarins í skýstróki 1973. (Einn sagði mér eftir á að það hefði bjargað þessum karakterlausa kerfisbæ að vera jafnað við jörðu og þannig gefist tækifæri til endurbyggingar - þarna var fyrrum aðeins nauðsynleg stjórnsýsla, en lítið líf. Síðar hafi komið starfsemi og líf í bæinn, t.d. með gasborunum og uppbyggingu því tengdri.) Og svo voru á safninu ótrúlega flott skip og bátar sem vitnuðu um forna siglingarhætti milli Ástralíu og Indónesíu og Papúa Nýju Guineu. Og loks dæmi um myndlist innfæddra. Eftir safnið fórum við á Mindil Beach og nutum sólarlagsins.


Við fórum í frábærar dagsferðir (sjá fyrri blogg), sáum sýningu um árás Japana á Darwin 1943 og um The Flying Doctors sem er ótrúlega flott fyrirbrigði sem á upphaf sitt til fyrri hluta síðari aldar og tryggir fólki í fjarlægustu byggðum aðgengi að læknisþjónustu. Og við fórum á útitónleika með hljómsveitinni Yothu Yindi, sem er skipuð frumbyggjum frá Arnhem land.


Dvölin í Darwin opnaði okkur heim frumbyggja, ekki síst samtölin sem við áttum við ferðafélaga og leiðsögumenn. Keyptar voru bækur og byrjað að lesa og læra meira.